Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga umsækjanda

Hver er tilgangur vinnslu persónuupplýsinga og hver er grundvöllur hennar?

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri (hér eftir ,,FMA”) er nauðsynlegt að safna og vinna með persónuupplýsingar þínar í þeim tilgangi að leggja mat á og afgreiða umsókn um styrk úr sjúkrasjóði/endurmenntunarsjóð.

Heimild til vinnslu framangreindra persónuupplýsinga grundvallast á samþykki sbr. 1. tl. 1. mgr. 9. gr. og vinnulöggjöf sbr. 2. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Hvaða upplýsingar er unnið með og hvaðan koma þær?

Unnið er með þær persónuupplýsingar sem óskað er eftir samkvæmt umsóknareyðublaði. Þær upplýsingar sem óskað er eftir eru nauðsynlegar til þess að leggja mat á umsóknina. Ekki fer fram sjálfvirk ákvarðanataka við afgreiðslu umsóknar. Umsækjandi sjálfur veitir framangreindar upplýsingar og gætu afleiðingar þess að veita ekki umbeðnar upplýsingar verið höfnun á umsókn.

Hversu lengi eru persónuupplýsingarnar geymdar og er þeim miðlað til þriðja aðila?

FMA geymir aðeins persónuupplýsingar í þann tíma sem nauðsynlegur er til að uppfylla tilgang vinnslunnar. Stéttarfélagið miðlar ekki umræddum persónuupplýsingum til annarra aðila.

Hvernig tryggjum við öryggi persónuupplýsinga?

FMA leggur mikla áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga í takt við persónuverndarlög. Stéttarfélagið gætir persónuupplýsinga með viðeigandi tæknilegum og skipulagslegum ráðstöfunum í samræmi við stefnu félagsins um öryggi, t.d. með notkun gerviauðkenna og dulkóðuna. Aðgangsstýringar eru viðhafðar þar sem aðeins þeir starfsmenn FMA sem vinna með umrædd gögn, starfs síns vegna, hafa aðgang að þeim.

Hver eru réttindi þín?

Einstaklingar njóta ákveðins réttar samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, svo sem réttar til að vera upplýstir um vinnslu, réttar til aðgangs að gögnum, réttar til að fá rangar eða villandi upplýsingar leiðréttar, réttar til að persónuupplýsingum verði eytt, réttar til að hindra að unnið verði með persónuupplýsingar um þá, réttar til að andmæla vinnslu og réttar til flytja eigin gögn. Þá hafa umsækjendur rétt til að afturkalla samþykki sitt hvenær sem er, án þess þó að það hafi áhrif á lögmæti vinnslu á grundvelli samþykkisins fram að afturkölluninni. Hafa skal í huga að réttindi einstaklinga eru ekki alltaf fortakslaus og kunna að vera háð ýmsum skilyrðum.

Samskiptaupplýsingar, persónuverndarfulltrúi og kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga

Persónuverndarstefnu stéttarfélagsins má lesa í heild sinni á vef FMA.

Ef þú hefur frekari spurningar um réttindi þín eða hvernig stéttarfélagið meðhöndlar persónuupplýsingar getur þú ávallt haft samband við persónuverndarfulltrúa FMA, Halldór Oddsson, halldoro@asi.is

Einnig er hægt að hafa samband við FMA í síma 455- 1050 eða með því að senda erindi á fma@fma.is.

Skráðir einstaklingar hafa einnig heimild til að leggja fram kvörtun til Persónuverndar (www.personuvernd.is), dragi þeir í efa að persónuupplýsingar þeirra séu meðhöndlaðar í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.